Erlent

Árás með kjötöxi í Kína

Óli Tynes skrifar

Kínverskur maður vopnaður kjötöxi réðist á og særði sex konur í bænum Foshan í suðurhluta landsins í gær.

Þetta er sjötta árásin á undanförnum vikum þar sem einn maður ræðst á hóp af fólki til þess að myrða og meiða. Í flestum tilfellum hafa árásirnar beinst að dagheimilum barna.

Tugir barna og fullorðinna hafa látið lífið í þessum árásum og enn fleiri særst.

Árásin í gær hófst með því að maðurinn réðist á konu fyrir utan veitingastað og veitti henni hættulega áverka.

Þvínæst þaut hann inn á útimarkað og særði fimm til viðbótar. Að því loknu fór hann upp á fjórðu hæð í íbúðarhúsi og stökk þar framaf. Hann lést við fallið.

Flestir árásarmannanna hafa notað eggvopn eða hamra í árásum sínum. Skotvopn eru undir ströngu eftirliti í Kína og erfitt að komast yfir þau.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×