Skoðun

Ja hérna hér

Undanfarið hefur verið umfjöllun um svokallaða detox-meðferð og afstöðu Landlæknisembættisins til málsins.

Athygli skal vakin á því að greinargerð Landlæknis má finna í heild á vefsíðu Landlæknisembættisins, www.landlaeknir.is. Um er að ræða allítarlega greinargerð, þar sem fjallað er málefnalega um það sem hér um ræðir. Sérstaklega er greint frá ítarlegri og vel rökstuddri kvörtun fjögurra einstaklinga, en miklu fleiri athugasemdir hafa borist. Sumir undrast langlundargeð landlæknisembættisins.

Á heimasíðunni er einnig að finna svarbréf Jónínu Benediktsdóttur, sem er ekki síður fróðlegt til aflestrar, en er ekki að sama skapi málefnalegt. Undirritaður óskaði eftir því við Jónínu að hún legði fram gögn um vísindalegt gildi detox-meðferðar, en ekkert barst. Meðferðin var auglýst sem læknismeðferð, þótt þar starfi enginn læknir. Upptalning er á fjölda langvinnra sjúkdóma sem þessi meðferð á að hafa áhrif á, en enginn fótur er fyrir. Á ensku er sagt að detox sé læknisfræðilega viðurkennd meðferð hér á landi, sem er beinlínis rangt.

Oft koma mér í hug orð mætrar konu sem er velviljuð Jónínu og fékk að skoða gögnin og málsvörn Jónínu. Orðin voru þau sem ég hef valið í fyrirsögn þessarar greinar: „Ja hérna hér."




Skoðun

Sjá meira


×