Erlent

Saab úr sögunni

Óli Tynes skrifar
Saab bílar voru löngum sérstakir í útliti. Þetta er Saab 96.
Saab bílar voru löngum sérstakir í útliti. Þetta er Saab 96.

Saab hefur verið rekið með tapi í öll þau tíu ár sem verksmiðjurnar hafa verið í eigu General Motors. Fjármálakreppan varð svo til þess að endanlega var ákveðið að loka þeim, nema bærist tilboð sem teldist skárri kostur.

Bob Lutz aðstoðarframkvæmdastjóri hefur nú staðfest við sænska Aftonbladet að ekkert slíkt tilboð hafi borist og því verði Saab lokað.

Lutz sagði jafnframt að General Motors hefðu hikað alltof lengi við að ákveða örlög Saab og persónulega sé hann ánægður með að loks liggi fyrir niðurstaða.

Niðurstaða er mikið áfall fyrir Svía. Um það bil 3.400 manns vinna hjá Saab verksmiðjunum í Trollhättan. Könnun hefur sýnt að áttaþúsund manns til viðbótar geti misst vinnuna í afleiddum störfum í Vestur-Svíþjóð.

Það er samtals á tólfta þúsund manns. Norska blaðið Aftenposten segir að sænsk stjórnvöld hafi sent fulltrúa til höfuðstöðva General Motors í Detroit til þess að reyna að finna leiðir til að bjarga Saab. Það hafi ekki tekist.

Saab bílaverksmiðjurnar hafa starfað í sextíu og tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×