Handbolti

Aron vann Meistaradeildina tíu árum á undan Ólafi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson (númer 24) fagnar hér sigri ásamt félögum sínum í liðinu.
Aron Pálmarsson (númer 24) fagnar hér sigri ásamt félögum sínum í liðinu. Mynd/AP

Aron Pálmarsson vann sinn fyrsta stóra titil á ferlinum þegar hann vann Meistaradeildina með Kiel í gær og náði því þar með að vera áratug fljótari að vinna þennan eftirsótta titil en hinn sigursæli Ólafur Stefánsson.

Ólafur Stefánsson var fyrir daginn í gær eini íslenski handboltamaðurinn sem hafði náð að vinna Meistaradeildina sem leikmaður en Ólafur vann Meistaradeildina í fjórða sinn á ferlinum í fyrra.

Aron Pálmarsson og félagar í Kiel sáu til þess að Íslendingar eiga fulltrúa í besta liði Evrópu þriðja árið í röð en Ólafur hafði unnið Meistaradeildina með Ciudad Real 2008 og 2009.

Aron Pálmarsson vann þarna sinn fyrsta stóra titil með THW Kiel en hann verður ekki tvítugur fyrr en 19. júlí næstkomandi. Aron varð því áratug á undan Ólafi Stefánssyni að vinna Meistaradeildina.

Ólafur vann Meistaradeildina fyrst með SC Magdeburg 27. apríl 2002 þá rétt áður en hann varð þrítugur. Hann var þá að vinna sinn fjórða stóra titil með félaginu og hafði áður orðið EHF-meistari tveimur árum áður.

Alfreð Gíslason þjálfaði lið Magdeburg þegar liðið vann Meistaradeildina 2002 og vann titilinn síðan aftur með Kiel í gær. Hann var því búinn að bíða í átta ár eftir að vinna Meistaradeildina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×