Innlent

Breyting útilokar orkukosti

Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku.
Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku.
„Þetta kann að hafa þau áhrif að allt Torfajökulssvæðið standi utan rammaáætlunarinnar. Þá erum við að tala um einn þriðja af öllum nýtanlegum jarðhita sem eftir er í landinu að mati Orkustofnunar," segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku.

Textabreyting á frumvarpi iðnaðarráðherra um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða útilokar nýtingu á friðlýstum svæðum nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er textabreytingin runnin undan rifjum Vinstri grænna og var sett sem skilyrði fyrir því að málið yrði afgreitt út úr þingflokkum stjórnarflokkanna.

Frumvarpið var kynnt í ríkisstjórn í desember en var ekki lagt fyrir þingið fyrr en um miðjan júní. Þá mælti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fyrir málinu í fjarvistum iðnaðarráðherra. Engar umræður urðu um frumvarpið og málið afgreitt til iðnaðarnefndar og annarrar umræðu.

Gústaf Adolf segir að Samorka muni gera athugasemd við textabreytinguna enda sé verið að breyta leikreglum eftir á.

„Verkefnisstjórnin er búin að vinna misserum saman út frá öðrum forsendum. Nú er fjöldi svæða ekki lengur með og vart annað að sjá en þetta lýsi vantrausti á vinnu verkefnisstjórnarinnar." Allur gangur er á því hvernig friðlýsingarskilmálum er háttað á ólíkum svæðum.

„Þarna erum við að koma til móts við aðila sem töldu þetta betra fyrirkomulag, þó að ég sé annarrar skoðunar," segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. „Við vorum að mæta áhyggjum um að friðlýst svæði yrðu sett inn í nýtingarflokk. Þetta breytir ekki miklu þannig séð, nema að þessi svæði fara ekki í verndarflokkinn og færri svæði flokkuð sem slík fyrir vikið."

Svandís Svavarsdóttir umhverfis­ráðherra segir málið snúast um það að friðlýst svæði, og þau sem þegar eru innan þjóðgarða, komi ekki til álita við rammaáætlun. „Nýtingarsýnin hefur yfirskyggt aðra sýn á landnotkun á Íslandi. Við verðum að hafa það hugfast að þessi lög sem hér um ræðir verða ekki sett yfir önnur lög um náttúruvernd." - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×