Enski boltinn

Viduka líklega að fara að leggja skóna á hilluna

Ómar Þorgeirsson skrifar
Mark Viduka.
Mark Viduka. Nordic photos/AFP

Framherjinn Mark Viduka hefur nú verið án félags í níu mánuði eða síðan hann hætti hjá enska b-deildarfélaginu Newcastle.

Fastlega var reiknað með því að hinn 34 ára gamli Viduka myndi fljótt finna sér nýjan vinnuveitenda og var Ástralinn meðal annars orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið West Ham en allt kom fyrir ekki.

Viduka flutti aftur til Ástralíu ásamt fjölskyldu sinni og var í viðræðum við ástralska félagið Melbourne Heart um að spila með félaginu á næsta tímabili en stjórnarformaður félagsins hefur nú staðfest að ekkert verði af samningum.

„Við ræddum við hann um samning en hann vill ekki spila. Hann er farinn að snúa sér að öðru og kveðst ekkert vera að hugsa um fótbolta núna," segir stjórnarformaðurinn Scott Munn í viðtali við dagblaðið Herald Sun.

Viduka hefur ekki formlega tilkynnt um að hann sé hættur en þessi skæði sóknarmaður er einna þekktastur fyrir spilamennsku sína með Leeds á árunum 2000-2004 þegar hann skoraði 59 mörk í 130 leikjum fyrir félagið.

Viduka var einnig fyrirliði ástralska landsliðsins um tíma en hann á að baki 43 landsleiki fyrir Ástralíu og skoraði hann 11 mörk í þeim leikjum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×