Hljómsveitin Jón Jónsson kemur fram í fyrsta sinn í langan tíma á skemmtistaðnum Risinu í Tryggvagötu fimmtudagskvöldið 9. september.
Hljómsveitin er hugarfóstur Hafnfirðingsins Jóns Ragnars Jónssonar. Sveitin sendi frá sér lagið Lately í vor og sat það á topp tíu lista Rásar 2 í sjö vikur samfleytt. Nýlega kom síðan út lagið Kiss in the Morning sem hefur einnig fengið góðar viðtökur.
Hægri hönd Jóns Ragnars í tónlistinni er Kristján Sturla Bjarnason sem spilar á píanóið og aðstoðar við útsetningar, upptökur og hluta af lagasmíðunum. Saman eiga þeir, ásamt nokkrum öðrum félögum, upptökuverið Hljóðmúla í Ármúlanum þar sem þeir taka upp öll sín lög. Lögin eru undir sterkum áhrifum bandarískra tónlistarmanna á borð við Jack Johnson, John Mayer og Gavin Degraw, en þó með íslenskri áferð. Aðrir meðlimir bandsins eru Gauti Rafn Ólafsson, Brynjar Ingi Unnsteinsson og Steinþór Guðjónsson.
Tónleikarnir í Risinu hefjast kl. 21.30 og miðaverð er 1.000 krónur.