Viðskipti innlent

Greining MP Banka spáir 6,8% verðbólgu

Greining MP Banka segir að útlit sé fyrir að verðlag hafi hækkað töluvert milli mánaða nú í febrúar. Líklegt er að vísitalan hækki um 0,7% milli mánaða sem þýðir að ársverðbólgan eykst aðeins, úr 6,6% í 6,8%.

Fjallað er um málið í Markaðsvísi greiningarinnar. Þar segir að kaupmáttur hefur dregist verulega saman undanfarna mánuði og því hefur dregið úr verðbólguáhrifum eftirspurnar þótt heimildir til úttektar viðbótarlífeyrissparnaðar vegi aðeins á móti þeirri þróun.

Kostnaður hefur hækkað verulega vegna lækkunar gengis og er viðbúið að enn gæti einhverra hækkunaráhrifa vegna þess. Gengi krónunnar hefur þó hætt að falla eins og er. Fyrri hluta febrúar hefur krónan verið um 2,5% sterkari en hún var í nóvember. Olíuverð hefur hins vegar haldið áfram að hækka.

Útsöluáhrif í janúar voru nokkuð sterkari en búist var við. Í þessari spá er gert ráð fyrir að þau gangi að stórum hluta til baka í febrúar líkt og undanfarin ár.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% í janúar samkvæmt mælingu Fasteignaskrár Íslands. Lækkun síðastliðna mánuði vegur þó enn þungt inn í vísitölu neysluverðs og reiknuð húsaleiga dregur því enn úr verðbólgunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×