Viðskipti innlent

Alþjóðamarkaðir bjartsýnir á lausn Icesavedeilunnar

Ört lækkandi skuldatryggingaálag á ríkissjóð undanfarið er merki um að alþjóðamarkaðir séu bjartsýnir á að lausn muni finnast í Icesavedeilunni á næstunni.

„Það er vart hægt að túlka þróunina á skuldatrygginaálaginu á annan hátt en að markaðurinn búist við lausn á Icesavedeilunni," segir Yngi Örn Kristinsson fyrrum forstjóri hagfræðideildar Landsbankans í samtali við visir.is. Sama sjónarmið kom fram hjá Yngva Erni í þættinum Hrafnaþing á ÍNN fyrr í vikunni.

„Menn vita sem er að þegar Icesavesamkomulag er í höfn leysist sá hnútur sem endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verið í og lánin frá Norðurlöndunum munu koma í hús," segir Yngi Örn. „Slíkt tryggir svo aftur að ríkisjóður mun örugglega standa skil af lánum sínum á næsta ári."

Lánin sem Yngvi Örn talar hér um eru meðal annars skuldabréfaflokkar í evrum sem kom til greiðslu á næsta ári. Eins og fram hefur komið í fréttum hér á vísir.is hafa viðskipti með þessi skuldabréf verið stopul og ógagnsæ. Hinsvegar liggja frammi kaup og sölutilboð í þau og bilið á milli þessara tilboða frá degi til dags er m.a. notað við að meta skuldatryggingaálag ríkissjóðs á hverjum tíma hjá CMA og í Markit itraxx vísitölunni.

Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag munu erlendar greiðslur og afborganir af lánum nema ríflega 250 milljörðum kr. í heildina á næsta ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×