Erlent

Vísindamenn sanna virkni lýsis gegn ýmsum sjúkdómum

Vísindamenn hafa komist mjög nálægt því að sanna afhverju lýsi virkar vel gegn ýmsum kvillum allt frá gigt til hjarta- og æðasjúkdóma.

Það eru bandarískir og japanskir vísindamenn sem hafa uppgvötvað að Omega 3 fitusýrurnar í lýsi bindast svokölluðum viðtökum sem er að finna í miklu magni í fituvef og frumum ónæmiskerfisins.

Fitusýrur þessar passa eins og lykill í skráargat þegar þær bindast viðtökunum sem hefur þau áhrif að verulega dregur úr bólgum og ígerðum. Bólgumyndunin hefur svo aftur verið tengd við þróun sykursýki, æðakölkunnar, Alzheimer, augnsjúkdóma og liðagigtar.

Sagt er frá niðurstöðum vísindamannanna í vísindaritinu Cell. Þar er haft eftir lækninum Jerrold Olefsky við Kaliforníuháskólann að Omega 3 fitusýrurnar virki mun betur gegn bólgumynduninni en önnur meðul sem notuð hafa verið.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við umfangsmiklar rannsóknir sem gerðar voru á blóði eskimóa fyrir 30 árum sem sýndu að mikil neysla þeirra á ómettuðum fitusýrum úr sjávardýrum dró verulega úr hættunni á blóðtappa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×