Erlent

Leggur milljarða í samgöngur

Endurnýja á um 240 þúsund kílómetra af vegum, auk viðhalds á járnbrautakerfi og flugbrautum samkvæmt áætlun Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Fréttablaðið/AP
Endurnýja á um 240 þúsund kílómetra af vegum, auk viðhalds á járnbrautakerfi og flugbrautum samkvæmt áætlun Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Fréttablaðið/AP
Ríkisstjórn Baracks Obama ætlar að eyða um 50 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði 5.850 milljarða króna, til að endurnýja vegakerfi, járnbrautir og flugvelli. Áformunum er ætlað að hafa jákvæð áhrif á efnahagslíf landsins.

Þessar gríðarlegu fjárfestingar í innviðum landsins eru hluti af aðgerðaáætlun Obama sem kynnt verður á næstunni. Talið er að forsetinn vilji koma áætluninni af stað fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum í nóvember.

Leggja á 50 milljarða Bandaríkjadala í verkefnið strax í ár, en verkefnið á að standa í sex ár. Ljóst er að frekari fjármunum verður varið til uppbyggingarinnar á næstu árum.

Obama mun leita ýmissa leiða til að borga fyrir efnahagsaðgerðirnar. Eitt af því sem hann hefur til skoðunar er að taka fyrir ýmiss konar skattaafslátt sem framleiðendur olíu og gass hafa notið undanfarið.

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er nú um 9,6 prósent. Skoðanakannanir sýna að flokksbræður Obama í Demókrataflokknum standa afar illa fyrir kosningarnar í nóvember. Stjórnmálaskýrendur telja það hluta af skýringunni á því að Obama ákveði að leggja í svo kostnaðarsamar aðgerðir í efnahagsmálum. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×