Viðskipti innlent

Laun hækkuðu um 1,6% frá fyrri ársfjórðungi

Samkvæmt vísitölu launa voru regluleg laun að meðaltali 1,6% hærri á fjórða ársfjórðungi 2009 en í ársfjórðungnum á undan. Á sama tímabili hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 1,9% að meðaltali en laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 0,8%.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að frá fyrra ári hækkuðu laun um 3,2%, þar af um 3,4% á almennum vinnumarkaði og um 3,0% hjá opinberum starfsmönnum.

Frá fyrri ársfjórðungi hækkuðu laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks mest eða um 2,7% en laun sérfræðinga hækkuðu minnst eða um 1,1%. Frá fyrra ári hækkuðu laun á bilinu -0,2% til 5,7%, mest hækkuðu laun verkamanna en minnst stjórnenda.

Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun launa í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu 2,6%. Á sama tímabili hækkuðu laun í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum um 0,6%. Frá fyrra ári hækkuðu regluleg laun mest í iðnaði um 5,0 % en laun í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð lækkuðu um 0,9% á sama tímabili.

Í júlí síðastliðnum voru undirritaðar breytingar og framlenging kjarasamninga flestra aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambands Íslands annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Samkvæmt samningunum var gert ráð fyrir hækkun launataxta í þremur áföngum, þann 1. júlí 2009, 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010. Samkvæmt samningunum hækkuðu lægstu launaflokkar um 6.750 krónur þann 1. júlí og 1. nóvember 2009.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×