Erlent

Talibanar vissir um sigur

Óli Tynes skrifar
Bandarískir hermenn í skotbardaga í Afganistan.
Bandarískir hermenn í skotbardaga í Afganistan. Mynd/AP
David Richards hershöfðingi yfirmaður breska herráðsins sagði fyrir skömmu að það gæti verið gagnlegt að ræða við talibana.

Breska fréttastofan BBC kom á framfæri spurningum um þetta til talsmanns talibana í Afganistan.

Svarið var að þeir hefðu ekki áhuga á að tala við neinn. Hvorki Hamiz Karzai forseta Afganistans né útlendinga, fyrr en erlendar hersveitir væru farnar frá landinu.

Orðrétt sagði svo: Við erum vissir um að við séum að vinna. Hví skyldum við semja ef við höfum yfirhöndina og erlendu hersveitirnar eru að hugsa um að fara og það er óeining meðal óvina okkar.

Í svarinu er einnig bent á að júní hafi verið blóðugasti mánuður innrásarhersins í Afganistan. Þá hafi 102 vestrænir hermenn fallið, meira en þrír á dag að meðaltali.

Talibanar virðast einnig telja að upplausn ríki í óvinahernum eftir að Barack Obama rak úr starfi hershöfðingjann Stanley McChrystal, sem var yfirmaður herja NATO í Afganistan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×