Skoðun

Lækkun húsaleigubóta

Jens Fjalar Skaptason skrifar
Frá árinu 1994 hafa húsaleigubætur staðið þeim sem leigja húsnæði til búsetu til boða. Í samræmi við þær áherslur sem eru ríkjandi í norrænni húsnæðispólitík er húsnæðisstuðningurinn bæði einstaklingsbundinn og tekjutengdur svo eðli máls samkvæmt er hann fyrst og fremst til hagsbóta fyrir þá tekjulægstu, t.d. námsmenn. Yfirlýst markmið með setningu laga um húsaleigubætur var einmitt það að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.

Fyrir ríflega tveimur árum undirritaði núverandi forsætisráðherra reglugerð þess efnis að almennar húsaleigubætur myndu hækka í fyrsta skipti í átta ár. Jafnframt var kveðið á um þátttöku ríkisins í greiðslu sérstakra húsaleigubóta í fyrsta sinn. Ekki stóð ríkið við sinn hlut lengi og í byrjun mars árið 2009 gaf Samband íslenskra sveitarfélaga frá sér yfirlýsingu þar sem þau átöldu samkomulagsbrot ríkisins. Töluvert skorti á fjármagn til að hlutur ríkisins gæti talist að fullu efndur samkvæmt samkomulaginu.

Nú bregður svo við að ríkisstjórnin hefur ákveðið að stíga skrefið til fulls afturábak. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er áformað að fella niður framlög til sveitarfélaganna vegna húsaleigubóta. Þetta skýtur skökku við áherslu núverandi ríkisstjórnar á aukinn félagslegan stuðning í þjóðfélaginu.

Núverandi markaðsaðstæður gera það að verkum að töluverður hluti landsmanna ræður ekki við hið hefðbundna eignaréttarform sem hefur verið ríkjandi á íslenskum húsnæðismarkaði í áratugaraðir. Ungir námsmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref úr foreldrahúsum hafa flestir ekki fjárhagslegt bolmagn til að fjárfesta í eigin fasteign. Á sama tíma og fjöldinn allur af húsnæðiskosti stendur tómur þurfa æ fleiri stúdentar, sem þess eiga kost, að hverfa af leigumarkaði vegna hækkandi leiguverðs. Það er kominn tími til að ríkið bjóði þegnum sínum upp á húsaleigu sem raunverulegan langtímavalkost með sambærilegum hætti og tíðkast í öðrum Evrópuríkjum.

Það er engum vafa undirorpið að lækkun húsaleigubóta hefur verulega slæmar afleiðingar í för með sér fyrir stúdenta. Úrræði til hagsbóta fyrir stúdenta hafa farið síþverrandi að undanförnu og hvatinn til þess að feta sig á leigumarkaðinn er enginn. Hagur þjóðarbúsins hlýtur að felast í því að íbúðarhúsnæði standi ekki autt og að stúdentar, jafnt sem aðrir leigutakar, haldi velli á leigumarkaðnum. Því takmarki væri náð með því að auka fjárhagslegan fýsileika íbúðarhúsnæðis, til dæmis með auknu vægi húsaleigubóta í leigujöfnunni.



 




Skoðun

Sjá meira


×