Viðskipti innlent

Hallarekstur hins opinbera þrefaldaðist í árslok 2009

Hið opinbera rekið með 43,5 milljarða króna tekjuhalla á fjórða ársfjórðungi í fyrra samanborið við 14 milljarða króna tekjuhalla á sama tíma 2008 (án 192 milljarða skuldaryfirtöku ríkissjóðs). Þetta kemur fram í Hagtíðindum í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á 4. ársfjórðungi 2009.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir þar af nam tekjuhalli ríkissjóðs og almannatrygginga 38,9 milljörðum króna og tekjuhalli sveitarfélaganna 4,6 milljörðum. Á sama tíma 2008 var tekjuhalli ríkissjóðs og almannatrygginga 11,3 milljarðar án skuldaryfirtöku og tekjuhalli sveitarfélaga 2,8 milljarðar króna.

Hin óhagstæða þróun í fjármálum hins opinbera milli ársfjórðunganna skýrist fyrst og fremst af auknum útgjöldum vegna mikillar skuldsetningar og atvinnuleysis.

Heildartekjur hins opinbera eru áætlaðar um 169 milljarðar króna á 4. ársfjórðungi 2009 samanborið við tæplega 162 milljarða króna á sama tímabili 2008 og hækkuðu því um 4,1% milli ára, en hækkunin skýrist einkum af auknum tekjum af tryggingagjöldum og sölu- og eignatekjum.

Skatttekjur lækkuðu hins vegar lítillega milli tímabilanna. Heildarútgjöld hins opinbera námu samkvæmt áætlun 212 milljörðum króna á 4. ársfjórðungi 2009 samanborið við 176 milljarða króna árið 2008 (án skuldaryfirtöku ríkissjóðs), og nam hækkunin 20,5% milli ára.

Sú hækkun skýrist einkum af verulega auknum vaxtagreiðslum hins opinbera vegna skuldsetningar og auknum félagslegum tilfærslum til heimila eins og áður segir, en samneysluútgjöld hins opinbera lækkuðu hins vegar um 1 milljarð króna milli tímabilanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×