Erlent

Bíræfnu bankaráni líkt við það besta frá Olsen genginu

Ekstra Bladet segir að jafnvel Egon Olsen og félagar gátu ekki gert betur en þetta.
Ekstra Bladet segir að jafnvel Egon Olsen og félagar gátu ekki gert betur en þetta.

Bíræfið bankarán í útibúi Danske Bank á Nörreport í Kaupmannahöfn hefur vakið mikla athygli í dönskum fjölmiðlum.

Danskir fjölmiðlar líkja ráninu við það besta sem sást til Olsen-gengisins í samnefndum kvikmyndum á seinnihluta síðustu aldar.

Bófarnir sem rændu útibú Danske Bank á Nörre Voldgade í Kaupmannahöfn komu inn í útibúið skammt fyrir lokun þess síðasta föstudag. Þeim tókst að beina athygli starfsmanna bankans annað meðan að þeir földu sig í bankahvelfingunni þar til bankanum var lokað. Þá hófust þeir handa í ró og næði við að brjótast inn í öryggishólfin í hvelfingunni. Þeir höfðu góðan tíma til þessa og gistu í hvelfingunni alla helgina.

Samkvæmt lögreglu virtust þeir hafa tekið með sér nóg af mat og drykk. Á mánudagsmorgunn þegar bankinn opnaði röltu þeir svo í rólegheitum út með ránsfeng sinn.

Danskir fjölmiðlar segja að bæði lögreglan og Danske Bank hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að halda þessu bankaráni leyndu en nú brosa margir Danir yfir óförum bankans. Eins og Ekstra Bladet segir, jafnvel Egon Olsen og félagar gátu ekki gert betur en þetta.

Það er enn ekki vitað hve miklum fjárhæðum bófarnir náðu. Verið er að kanna málið með því að ná tali af eigendum öryggishólfanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×