Erlent

Reynt að blása í glæðurnar

Clinton í Katar. Fundur utanríkisráðherra Bandaríkjanna með Sheikh Hamad bin Jassim Jabr Al-Thani, forsætis- og utanríkisráðherra Katar.
Nordicphotos/AFP
Clinton í Katar. Fundur utanríkisráðherra Bandaríkjanna með Sheikh Hamad bin Jassim Jabr Al-Thani, forsætis- og utanríkisráðherra Katar. Nordicphotos/AFP

Ríkisstjórn Baracks Obama í Bandaríkjunum býr sig nú undir eina tilraunina enn til þess að koma friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna af stað.

Fundir háttsettra ráðamanna í Washington og nokkrum höfuðborgum Evrópu í bæði þessari viku og næstu þjóna því hlutverki að kanna möguleikana á frekari viðræðum.

Meðal annars munu fulltrúar frá Egyptalandi og Jórdaníu koma til viðræðna í Washington.

Fyrsti fundurinn í þessari lotu var þó í Katar á mánudag þegar Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hitti Sheikh Hamad bin Jassim Jabr Al-Thani, forsætis- og utanríkisráðherra þess lands.

Katar er eitt þeirra arabaríkja sem Bandaríkin vilja að styðji viðræðurnar.

Tilraunir Baracks Obama til þess að þoka friðarferlinu áfram í fyrra, á fyrsta ári sínu í embætti, hófust af krafti þegar hann fékk þaulreyndan sáttasemjara, George Mitchell, til að taka að sér að vera sérlegur fulltrúi sinn í Mið-Austurlöndum.

Þær tilraunir fóru þó fljótlega út um þúfur, enda blóðugri innrás Ísraela á Gasaströnd nýlokið og ný stjórn tekin við völdum í Ísrael sem virðist enn tregari en fyrri stjórnir til samninga. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×