Erlent

Fannst á lífi í rústunum á Haítí

Frá Haítí. Mynd/AP
Frá Haítí. Mynd/AP Mynd/AP
Manni var bjargað á lífi úr rústum byggingar á Haítí í gær, tæpum fjórum vikum eftir að jarðskjálfti olli gríðarlegu tjóni í landinu.

Það voru erlendir hjálparstarfsmenn sem björguðu manninum, sem er 28 ára gamall, úr rústunum í höfuðborginni Port au Prince og var hann fluttur á spítala. Fjölskylda mannsins fullyrðir að hann hafi verið í rústunum frá því að stærsti skjálftinn reið yfir en óljóst er hvort að hann hafi grafist undir farginu í einhverjum af þeim eftirskjálftum sem komu í kjölfarið. Bróðir mannsins sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að einhver hafi náð að koma vatni til hans á meðan hann var fastur í rústunum. Læknar segja að maðurinn sé vanærður og mjög þornaður en óbrotinn. Allt benti því til þess að hann hafi verið afar lengi í rústunum.

Tekist hefur að bjarga rúmlega 140 úr rústum Port au Prince. Talið er að allt að 200 þúsund manns hafi farist í jarðskjálftanum 12. janúar og að 1,5 milljón Haítíbúa hafi misst heimili sín. Sameinuðu þjóðirnar áætla að endurreisa þurfi 75% höfuðborgarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×