Viðskipti innlent

Íslandssjóðir hf. sektaðir fyrir villandi upplýsingar

Fjármálaeftirlitið hefur sektað Íslandssjóði hf. um eina milljón kr. fyrir villandi upplýsingagjöf. Málinu lauk með sátt í síðasta mánuði.

Á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins segir að með sáttinni gengust Íslandssjóðir við því að hafa brotið gegn lögum með því að hvorki vísa til útboðslýsingar eða útdráttar úr útboðslýsingu í auglýsingu sinni á verðbréfasjóðnum Veltusafni, er birtist á vefsíðunni www.m5.is þann 28. október 2009, né að taka fram hvort umræddur sjóður sé verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður.

Í lögunum kemur fram að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfasjóða skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi þessara aðila. Þess skal gætt að skýrt komi fram hvort sjóður sé verðbréfasjóður eða fjárfestingarsjóður. Þá kemur einnig fram að í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi skuli vísað í útboðslýsingu eða útdrátt úr útboðslýsingu og hvar megi nálgast þau gögn.

„Með vísan til framangreinds, atvika máls að öðru leyti... og reglna... um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt, var það mat Fjármálaeftirlitsins að fjárhæð sáttarinnar væri hæfilega ákveðin kr. 1.000.000," segir á vefsíðunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×