Erlent

Pólitískum föngum fækkar á Kúbu

Raoul Castro.
Raoul Castro.

Pólitískum föngum á Kúbu hefur farið fækkandi frá því Raoul Castró tók við stjórnartaumum í landinu úr hendi bróður síns Fídels.

Frá því í janúar á þessu ári hefur pólitískum föngum fækkað um 34 og eru þeir nú 167 að mati óháðrar mannréttindanefndar í landinu. Frá því Raoul tók við árið 2006 hefur pólitískum föngum í landinu fækkað um helming. Að sögn yfirmanns nefndarinnar Elizardo Sanchez, er þó ekki um sérstaklega góðar fréttir að ræða, heldur hafi yfirvöld aðeins breytt um vinnubrögð. Nú sé meiri áhersla lögð á hótanir og einelti í garð stjórnarandstæðinga í stað þess að dæma menn til langrar fangelsisvistar.

Í skýrslu nefndarinnar, sem er ólögleg á Kúbu þótt stjórnvöld umberi starf hennar, er bent á 800 tilfelli á þessu ári þar sem fólk hefur verið hneppt í varðhald í stuttan tíma og því svo sleppt án ákæru. Þó eru merki um að stjórnvöld hyggist sleppa fleiri pólitískum föngum úr haldi en þau lágu undir miklu ámæli í febrúar frá alþjóðasamfélaginu þegar pólitískur fangi lést í hungurverkfalli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×