Erlent

Segja til um líkur á langlífi

Aðeins einn af hverjum sex þúsund íbúum í vestrænum löndum nær því að verða 100 ára.
Aðeins einn af hverjum sex þúsund íbúum í vestrænum löndum nær því að verða 100 ára.
Bandarískir vísindamenn segjast hafa þróað leið til að segja til um líkurnar á því að manneskja lifi í meira en 100 ár.

Vísindamennirnir fundu 150 erfðafræðileg atriði sem fólk sem lifað hefur óvenjulega lengi á sameiginleg. Þeir hönnuðu stærðfræðilegt líkan sem reiknar út líkurnar á því að manneskja nái 100 ára aldri út frá þessum atriðum. Rannsóknin hófst árið 1995 og er stærsta rannsókn sem gerð hefur verið á fólki yfir 100 ára. Aðeins um einn af hverjum sex þúsund í vestrænum löndum nær þessum aldri.

Nákvæmni líkansins er 77 prósent, og sagði Paola Sebastiani sem leiddi rannsóknina, að það benti til þess að þó að erfðir hafi mikið að segja um langlífi séu þær ekki eini þátturinn. Lífsstíll og umhverfi geti til dæmis hjálpað fólki við að lifa lengur.

Vísindamennirnir segja möguleika á því að í framtíðinni muni fólk á einfaldan hátt geta fengið að vita líkur sínar á langlífi. Þó verði að hafa siðferðisspurningar um það í huga. Einn rannsakendanna hefur nú þegar hafist handa við gerð heimasíðu þar sem fólk getur reiknað þetta út hafi það nægilegar upplýsingar um erfðir sínar. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×