Erlent

Fullvissa um aðild Mossad

Heita hefnda Liðsmenn Hamas hengja stóra mynd af al-Mabhouh upp á vegg í bænum Beit Lahiya á Gasaströnd þegar þúsundir manna komu saman að minnast hans.fréttablaðið/AP
Heita hefnda Liðsmenn Hamas hengja stóra mynd af al-Mabhouh upp á vegg í bænum Beit Lahiya á Gasaströnd þegar þúsundir manna komu saman að minnast hans.fréttablaðið/AP

Lögreglan í Dúbaí fullyrðir nú að ísraelska leyniþjónustan Mossad hafi skipulagt morðið á einum af leiðtogum palestínsku Hamas-hreyfingarinnar á hótelherbergi í Dúbaí í síðasta mánuði.

Átján manns hafa nú verið nefndir og sakaðir um aðild að morðinu. Tvær konur eru í hópnum. Áður hafði lögreglan í Dúbaí birt nöfn, myndir og vegabréfsnúmer ellefu manna, sem sagðir voru grunaðir um aðild að morðinu.

Alþjóðalögreglan Interpol lýsti síðan í gær eftir þessum ellefu mönnum og biður lögreglu um heim allan að handtaka þá hvar sem til þeirra næst.

„Rannsóknir okkar hafa leitt í ljós að Mossad á aðild að morðinu á al-Mabhouh," sagði Dahi Khalfan Tamim, yfirmaður í lögreglunni í Dúbaí, við þarlent dagblað.

„Allir þættir málsins benda eindregið til aðildar Mossad," sagði hann.

Hamas-hreyfingin hafði áður fullyrt að menn á vegum ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad hefðu myrt Mahmoud al-Mabhouh. Ísraelar segja að hann hafi verið lykilmaður í smygli á vopnum til Hamas-hreyfingarinnar á Gasasvæðinu.

Hinir grunuðu voru með vegabréf frá Bretlandi, Írlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Fullvíst þykir að vegabréfin séu fölsuð, enda hefur komið í ljós að í það minnsta sjö nafnanna eru fengin frá ísraelskum ríkisborgurum, sem ekki er talið að eigi neina aðild að morðunum.

Sendiherrar Ísraels í Bretlandi og á Írlandi voru í gær kallaðir á fund stjórnvalda í báðum þessum löndum, en ísraelsk stjórnvöld vilja hvorki játa né neita því hvort leyniþjónustan Hamas hafi staðið þarna að verki.

Mahmoud al-Mabhouh var 49 ára þegar hann var myrtur á hótelherbergi sínu í Dúbaí 19. janúar. Hann var einn af stofnendum hernaðararms Hamas-hreyfingarinnar, sem ber ábyrgð á hundruðum árása á Ísrael og ísraelska borgara, þar með fjölmörgum sjálfsvígssprengjuárásum.

Al-Mabhouh var þó ekki þekktur meðal Palestínumanna. Hann hefur búið erlendis undanfarna tvo áratugi, en er talinn hafa stundað smygl á flugskeytum til Hamas-hreyfingarinnar á Gasasvæðinu.

Um þrjú þúsund manns komu saman í Gasaborg á miðvikudag til að minnast hans og heita hefndum.gudsteinn@frettabladi.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×