Erlent

Íhaldsflokkurinn sækir í sig veðrið í Bretlandi

Óli Tynes skrifar
David Cameron; næsti forsætisráðherra Bretlands?
David Cameron; næsti forsætisráðherra Bretlands?

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er breski Íhaldsflokkurinn nú með fjörutíu prósenta fylgi og myndi bæta við sig tveim þingsætum ef kosið yrði í dag.

Verkamannaflokkurinn er með 29 prósenta fylgi og myndi missa tvö sæti. Frjálslyndi flokkurinn fengi 21 prósent atkvæða og bætti við sig tveim þingsætum. Kosningar verða í Bretlandi í síðasta lagi í júní.

Könnunin var gerð fyrir breska blaðið Independent. Það vekur hinsvegar athygli að 56 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni töldu David Cameron leiðtoga Íhaldsflokksins slyngan sölumann, en höfðu nokkrar áhyggjur af því hvernig hann væri undirniðri.

Talsmenn beggja flokkanna draga þessar tölur í efa. David Miliband utanríkisráðherra sagði að eftir því sem kosningarnar nálguðust yrðu spurningarnar hvassari og svör Íhaldsflokksins yrðu veikari.

George Osborne skugga-fjármálaráðherra Íhaldsflokksins sagði að skoðanakannanir réðu ekki úrslitum kosninganna.

Menn þyrftu að gera upp við sig hvort þeir vildu fimm ár til viðbótar með George Brown, eða hvort þeir vildu sterkan leiðtoga eins og David Cameron við stjórnvölinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×