Handbolti

Bent Nyegaard: Sé ekki að Noregur vinni Ísland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Bent Nyegaard er gamalreyndur handboltaþjálfari.
Bent Nyegaard er gamalreyndur handboltaþjálfari. Mynd/E.Stefán
Bent Nyegaard er gamalreyndur handboltaþjálfari sem starfar nú sem sérfræðingur fyrir dönsku TV2-sjónvarpsstöðina á EM í handbolta. Vísir hitti á hann í Vínarborg í gær og spurði hann um leiki dagsins í keppninni.

Ísland mætir Noregi í dag og kemst með sigri eða jafntefli áfram í undanúrslitin. Danir eru í svipaðri stöðu en þeir komast með sigri á Króötum í kvöld áfram í undanúrslitin.

„Ég fæ ekki séð hvernig Noregur eigi að fara að því að vinna Ísland," sagði Nyegaard. „Ekki miðað við hvernig Ísland hefur verið að spila. Mér finnst liðið hafa líklega spilað besta sóknarleik allra liða á mótinu til þessa."

Hann var meira að segja búinn að spá því að íslenska liðið myndi komast alla leið í undanúrslitin.

„Ég spáði því að Ísland og Danmörk kæmust áfram upp úr þessum milliriðli og Frakkland og Pólland úr hinum. Útlitið hjá mér er því ekki svo slæmt."

Þó svo að Ísland tapi með þremur mörkum í dag kemst liðið engu að síður áfram ef Danir tapa fyrir Króötum. Nyegaard reiknar hins vegar með dönskum sigri í dag.

„Danmörk og Króatía hafa ekki verið að spila mjög vel hingað til í mótinu. Ég held að það sem skilur á milli liðanna er að Króatarnir eru örlítið þreyttir."

„Þeir gáfu allt það sem þeir áttu þegar heimsmeistarakeppnin fór fram á þeirra heimavelli. Þá komust þeir í úrslit en töpuðu. Ég ætla ekki að segja að þeir séu ekki hungraðir en ég held að það vanti aðeins upp á síðustu prósentustigin hjá þeim."

Nyegaard er hrifinn af leikstíl Íslands.

„Hann er mjög ákveðinn. Varnarleikurinn er góður og markverðirnir hafa sífellt verið að standa sig betur. Mér hefur þótt að markvarslan hafi verið vandamál hjá íslenska liðinu í gegnum tíðina en þetta snerist við á Ólympíuleikunum þar sem [Björgvin] Gústavsson spilaði frábærlega."

„Svo held ég að Ísland sé enn það lið sem skorar flest hraðaupphlaupsmörk og er hægt að styðja þá kenningu með tölfræðinni."

Noregur tapaði með miklum naumindum fyrir Danmörku í fyrradag. Telur hann að það gæti haft áhrif á þeirra frammistöðu í dag?

„Noregur og Ísland eru að koma úr mjög ólíkum áttum inn í þennan leik. Tapið hjá Noregi var mjög erfitt enda voru þeir með leikinn í höndunum allan tímann. Þeir hefðu ekki átt að tapa og þetta dró mikið úr þeirra möguleikum á mótinu."

„Ég held líka að munurinn á Íslandi og Noregi sé sá að Guðmundur Guðmundsson er byrjaður að nota sína varamenn meira. Við veltum því fyrir okkur í upphafi móts af hverju [Aron] Pálmarsson væri ekki að spila meira vegna þess að Snorri Guðjónsson var þá ekki upp á sitt besta."

„En þá var [Arnór] Atlason mjög góður og við vitum allir hvernig Ólafur Stefánsson spilar. [Róbert] Gunnarsson hefur verið frábær á línunni, [Guðjón Valur] Sigurðsson magnaður og [Alexander] Petersson líka."

„Eins og sjá má er byrjunarlið íslenska liðsins afar sterkt. Og með Aroni kom aðeins meiri fjölbreytni í leik liðsins. Ég tel að innkoma hans hafi skipt sköpum í sigri Íslands á Danmörku í Linz."

Nyegaard þekkir líka vel til íslenskra félagsliða enda þjálfaði hann fyrst ÍR og svo Fram frá 1981 til 1983.

„Ísland á sér stað í mínu hjarta. Ég átti þar þrjú frábær ár og ég á enn marga vini á Íslandi. Ég fylgist enn með úrslitum leikja þaðan og auðvitað mjög vel með íslenska landsliðinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×