Skoðun

Vilja borgarbúar samgöngumiðstöð?

Reynir Sigurbjörnsson skrifar
Hvað á að gera við nýja samgöngumiðstöð ef hún á aðeins að skapa vinnu fyrir verkfræðinga og iðnaðarmenn í tímabundin störf og vera endastöð fyrir landsbyggðina?

Ef þetta verður raunin er betra að verja fjármunum lífeyrissjóðanna í önnur verkefni, nema að farið verði í heildarskipulag á höfuðborgarsvæðinu þar sem allt er undir.

Reykjavík á að vera félagslega örugg, með góðri nærþjónustu og vistvænum samgöngum. Byrja mætti á því sem hægt er að kalla miðju borgarinnar, út frá nýrri samgöngumiðstöð og spítala, en þarna eru einnig tveir háskólar og gamli miðbærinn. Þarna verður til sá möguleiki að byrja að skipuleggja nýja vistvæna borg. Með nýrri samgöngumiðstöð er hægt að leggja teina til Keflavíkur og taka upp lestarsamgöngur frá miðborg Reykjavíkur með tengingu við nágrannasveitarfélögin til Keflavíkurflugvallar sem yrði drifin á innlendum orkugjafa.

Þegar hægt er að komast á milli miðborgar og flugvallar á skömmum tíma verður fyrst grundvöllur til að leggja niður flugvöllinn í Vatnsmýrinni.

Með grænni samgöngustefnu og innlendum orkugjöfum á almenningsfarartæki verður Reykjavík leiðandi í vistvænum samgöngum og sýnir þar með hvernig hægt er að leggja sitt af mörkum til að draga úr kolefnislosun. Jafnframt styrkjast efnislegir og félagslegir innviðir höfuðborgarsvæðisins, með uppbyggingu og atvinnusköpun vegna samgöngumannvirkja, uppsetningar á kerfum fyrir innlenda og vistvæna orku sem er þar að auki gjaldeyrissparandi.

Ný borgarstjórn á að láta Orkuveituna beina kröftum og fjármagni í samvinnu við ríkið til uppbyggingar fyrir vistvænar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Með flutningi verkefna frá ríki til borgar, sem Samfylkingin ætti að beita sér fyrir í nýrri borgarstjórn, getur borgin tekið yfir alla nærþjónustu sem hefur verið á forræði ríkis, eins og t.d. löggæslu, umferðarmál, öldrunarmál, málefni fatlaðra og fleira. Þar er Reykjavík mun betur í stakk búin að greina þarfir íbúanna en ríkisvaldið.

Höfundur er rafvirki og býður sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.



Skoðun

Sjá meira


×