Viðskipti innlent

Skilanefnd Kaupþings fær tæpa 11 milljarða í Svíþjóð

Skilanefnd Kaupþings mun á næstunni fá greiddar 600 milljónir sænskra kr. eða tæplega 11 milljarða kr. Um 80% viðskiptavina Acta Kapitalforvalting hafa fallist á tilboð Kaupþings um endurgreiðslur lána vegna kaupa á skuldabréfum í Lehman Brothers.

Eins og fram hefur komið hér á síðunni keyptu efnaðir Svíar skuldabréfin í gegnum Acta en með láni frá Kaupþingi skömmu áður en Lehman Brothers varð gjaldþrota haustið 2008. Alls var um 3.300 Svía að ræða og lánin sem þeir tóku til kaupanna námu allt að 350.000 sænskum kr. á einstakling.

Kaupþing gerði þessum viðskiptavinum tilboð fyrr í vetur um 40% afslátt af lánum þeirra gegn því skilyrði að þeir myndu ekki lögsækja bankann eða Acta. Þeir sem tekið hafa tilboðinu skulduðu samtals milljarð sænskra kr. hjá Kaupþingi sem fær nú 600 milljónir sænskra kr. endurgreiddar.

Eftir standa 20% af lántakendunum og segir í frétt á vefsíðunni e24.no að Kaupþing hafi framlengt frest sem þeir hafa til að taka tilboðinu fram til 15. mars.

Í frétt hér á síðunni í gærdag kom fram að yfir 300 af þessum viðskiptavinum munu ekki taka tilboði Kaupþings og hafa þeir ákveðið að fara í hóplögsókn gegn Acta og Kaupþingi til þess að fá lán sín felld niður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×