Erlent

Óeirðir geisa vegna skotárásar

Fjórtán eru særðir eftir óeirðir síðustu daga.fréttablaðið/ap
Fjórtán eru særðir eftir óeirðir síðustu daga.fréttablaðið/ap

Hundruð innflytjenda, sem flestir eru af afrískum uppruna, hafa undanfarna daga staðið fyrir óeirðum í bænum Rosarno á Suður-Ítalíu. Ástæða óeirðanna er skot­árás óþekkts manns þar sem tveir innflytjendur særðust. Kveikjan að árásinni er kynþáttahatur, að sögn innflytjendanna.

Óeirðirnar hafa staðið yfir síðan á fimmtudag þar sem innflytjendurnir hafa tekist á við lögreglu og íbúa bæjarins. Samkvæmt opinberum upplýsingum eru fjórtán sárir eftir átökin; lögregluþjónar, mótmælendur og íbúar bæjarins. Mótmælendur hafa látið grjót rigna yfir lögreglu, ráðist á saklausa borgara, brotið rúður verslana og skemmt bíla. Skólum bæjarins hefur verið lokað vegna ólátanna.

Talsmaður stjórnvalda á svæðinu segir að ofbeldið sé óviðunandi en engu síður hafi innflytjendunum verið gróflega ögrað.

Þúsundir farandverkamanna flytja til bæjarins á uppskerutíma á svæðinu ár hvert. Þeir búa í lélegu húsnæði og fá illa borgað fyrir sína vinnu.

Mikil spenna ríkir fyrir á svæðinu sem er umráðasvæði Ndrangheta, þekktra glæpasamtaka. Sambland kynþáttaátaka og hárrar glæpatíðni hefur í gegnum árin gert svæðið að púðurtunnu. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×