Viðskipti innlent

Hagstæð kjör LSS lækka fjármagnskostnað sveitarfélaga

Kjörin sem sem Lánasjóður sveitarfélaga (LSS) fékk í útboði sínu á föstudaginn voru með þeim hagstæðustu sem honum hafa staðið til boða undanfarið ár. Ætti það að öðru óbreyttu að leiða til heldur lægri fjármögnunarkostnaðar þeirra sveitarfélaga sem sækja fjármögnun sína til hans þessa dagana.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að góðar undirtektir voru við útboði Lánasjóðs sveitarfélaga á LSS24-bréfum og seldi sjóðurinn meira af bréfum en lagt hafði verið upp með. Eins og undanfarið þurfti LSS þó að sætta sig við u.þ.b. prósentustigs álag á ávöxtunarkröfu umfram sambærileg íbúðabréf.

Fyrir útboðið hafði sjóðurinn ráðgert að selja LSS24-bréf fyrir 500 milljónir kr. að nafnvirði. Hins vegar bárust tilboð að fjárhæð ríflega 2,5 milljarða kr. í bréfin og var ákveðið að taka tilboðum að nafnvirði 742 milljónir kr. á ávöxtunarkröfunni 4,75%. Eftir útboðið er LSS24-flokkurinn orðinn tæplega 17,8 milljarðar kr. að stærð, en útgáfa bréfa í þeim flokki er helsta fjármögnunarleið LSS til lánveitinga fyrir sveitarfélög.

Væntanlega hafa fréttir af fjárhagserfiðleikum Álftaness og kastljósið sem þau tíðindi beindu að fjárhag sveitarfélaga haft áhrif til hækkunar álags á LSS24-bréfin. Hins vegar er greiðsluflæði til LSS allvel tryggt þar sem sjóðurinn hefur veð í öllum tekjum sveitarfélaganna sem hann lánar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×