Skoðun

Skjaldborgarríkisstjórnin og eggjamennirnir

Jón Hjaltason skrifar
Ráðherrarnir okkar eru furðulostnir yfir eggjum og skítkasti er þeir verða fyrir nú um stundir. Og það þrátt fyrir skjaldborgina sem þeir hafa slegið um heimilin. Í sömu andrá véla þeir með ráðherrastóla eins og um lífið sjálft sé að tefla, makka um réttarhald yfir fyrrverandi forsætisráðherra, gera sitt besta til að ógilda gerða samninga við erlenda fjárfesta og kappkosta að telja okkur trú um að svokölluð „tilskipun um innstæðutryggingu nr. 94/19/EB“ geri okkur skylt að greiða Icesave.

Það er kannski dæmigert fyrir skynsemina í störfum núverandi ríkisstjórnar að þessi tilskipun um innstæðutryggingar leggur engar slíkar skyldur á herðar íslensku þjóðinni, þvert á móti bannar hún stjórnvöldum að axla þannig ábyrgð fyrir hönd lánastofnana.

Svo hlýðum við á hámenntaðan hagfræðiprófessor segja skjaldborgina eiginlega aðeins vera fyrir fólk sem eigi peninga! Allt er á sömu bókina lært.

Þetta, og fleira, hefur verið margtuggið en samt þykjast ráðherrarnir enn ekki skilja. Og undrast eggjakastið. Þeim þykir ekkert óeðlilegt að fitla við laun fólks til lækkunar en dettur ekki í hug eitt augnablik að eiga við vísitölur. Þær eru helgur dómur. Jafnvel þegar þeir hækka brennivín trekk í trekk flögrar ekki að þeim að aftengja slíkar hækkanir og lán fólks. Nei, skuldugir skulu gjalda. Líka froðupeningana sem urðu til í hruninu en voru aldrei annað en tölur á pappír. Að vísu setti einhver manndjöfull hornin í þann pakka með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Hugsið ykkur; núverandi skjaldborgar-ríkisstjórn hefur ætíð barist gegn því með kjafti og klóm að hrun-byrðunum væri jafnað í einhverju hlutfalli á milli skuldareigenda og skuldara. Það hefur verið skýlaus stefna núverandi valdhafa að skuldarar greiddu að fullu froðupeningana sem urðu til í hruninu.

Hvað gerðist svo þegar dómur féll í undirrétti – um bílalánin – og var óhagstæður peningavaldinu. Hverjir létu þá í sér heyra fyrstir manna? Jú, ráðherrarnir. Sömu menn og eru, að eigin sögn, búnir að slá skjaldborg um heimilin. Fögnuðu þeir niðurstöðunni? Nei, ekki aldeilis, þeir kröfðust hagstæðari kjara til handa lánafyrirtækjunum en samningar kváðu á um. Fyrirtækin verða að fá hærri vexti, já, seðlabankavexti á lánin, annað gengur ekki, predikuðu ráðherrarnir.

Af hverju? Jú, forsendurnar brustu. Lánin reyndust ólögleg (sem ráðherrarnir reyndar vissu löngu áður en málið kom fyrir dómstóla en kusu að gera – ekkert – og vörpuðu öndinni töluvert léttar við dóm hæstaréttar).

Nú spyrja eggjakastararnir þessa sömu ráðherra: Hvernig má það vera að forsendubrestur virkar aðeins í aðra áttina? Ólögleg lán og lánveitandanum skal bættur skaðinn. Hrun hagkerfis og byrðarnar lagðar óskiptar á skuldugan almenning.



Skoðun

Sjá meira


×