Erlent

Gaf bresku rannsóknarnefndinni röng svör

Hans Blix segir að fyrrverandi utanríkisráðherra Breta hafi nýverið gefið breskri rannsóknarnefnd röng svör.
Hans Blix segir að fyrrverandi utanríkisráðherra Breta hafi nýverið gefið breskri rannsóknarnefnd röng svör. Mynd/AP
Hans Blix, fyrrverandi yfirmaður vopnaeftirslits Sameinuðu þjóðanna, segir að Jack Straw, fyrrverandi utanríkisráðherra Breta, hafi gefið röng svör þegar hann bar nýverið vitni fyrir rannsóknarnefnd sem fer ofan í saumana á aðdraganda Írakstríðsins.

Umfangsmikil rannsókn stendur nú yfir í Bretlandi um aðdragandann að innrásinni í Írak 20. mars 2003. Til að mynda kom Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir nefndina í lok janúar.

Blix segist í samtali við breska ríkisútvarpið vera afar undrandi yfir mörgu af því sem Straw sagði þegar hann kom fyrir nefndina. Til að mynda hafi Straw sagt að vopnaeftirlitsmönnum hafi verið meinaður aðgangur að ákveðnum svæðum sem voru sérstaklega tiltekin í ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Þetta segir Blix að sé rangt og það eigi Straw að vita. Þvert á móti hafi samstarfsvilji Íraka aukist á degi hverjum mánuðina fyrir innrásina.

Straw kemur aftur fyrir rannsóknarnefndina síðar í dag og verður vafalítið spurður út í þessi orð fyrrverandi yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×