Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur gert athugasemd vegna fréttar í menningu á laugardag um fjárveitingar á síðustu ellefu árum til ýmissa aðila vegna bókaútgáfuverkefna af ýmsu tagi.
Segir Katrín að ranghermt sé í fréttinni að fjárveitingar þessar séu af ráðstöfunar-fé menntamálaráðuneytis, heldur komi þær inn í fjárlög ár hvert frá fjárveitinganefnd.
Hún hafi þá stefnu að slíkar fjárveitingar skuli alfarið vera á vegum fagnefnda. Raunar séu fjárveitingar til ýmissa safnastofnana sem vitnað var til í fréttinni líka komnar til innan fjárveitinganefndar og hennar sjónarmið sé að þær eigi líka að vera á valdsviði fagaðila.
Ríkisendurskoðun hafi í skýrslum sínum til Alþingis lagt það til. Í svari ráðuneytis síns við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur hafi þetta ekki komið fram. Er þessari athugasemd ráðherra hér með komið á framfæri og beðist velvirðingar á þessu ranghermi.

