Erlent

Hættur vegna forræðismáls

Littorin tilkynnti ákvörðun sína á blaðamannafundi í bænum Visby í Svíþjóð í gærmorgun. 
nordicphotos/afp
Littorin tilkynnti ákvörðun sína á blaðamannafundi í bænum Visby í Svíþjóð í gærmorgun. nordicphotos/afp
Sven Otto Littorin, atvinnumálaráðherra Svíþjóðar, hefur sagt af sér embætti af persónulegum ástæðum. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi í gærmorgun.

Littorin stendur í forræðisdeilu við fyrrverandi eiginkonu sína vegna þriggja barna þeirra. Eftir að hafa mætt í réttarsal vegna málsins á þriðjudag tók hann ákvörðun um að hætta. Málið hefur vakið mikla fjölmiðlaathygli í Svíþjóð og tekið sinn toll af fjölskyldunni að sögn Littorins.

Littorin sagði börnin þrjú vera ástæður afsagnarinnar því þau hefðu þurft að gjalda fyrir embætti föður síns. „Börnin mín eru meira virði en starfið, ferillinn og allt annað,“ sagði Littorin á fundinum. Hann sagðist hafa fengið nóg og væri ekki lengur reiðubúinn að færa þær fórnir sem nauðsynlegar væru. Hann hætti því fyrir börnin, sjálfan sig og unnustu sína.

Kosningar verða haldnar í Svíþjóð eftir tvo mánuði og er sjaldgæft að ráðherrar segi af sér svo stuttu fyrir kosningar. Tobias Billström, ráðherra innflytjendamála, tekur tímabundið við ráðuneyti atvinnumála. Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra tilkynnti það í gær en tjáði sig ekki um afsögn Littorins. - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×