Handbolti

Ísland hefur aldrei unnið Króatíu á stórmóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson var með í sigrinum á Króatíu árið 1993.
Ólafur Stefánsson var með í sigrinum á Króatíu árið 1993. Mynd/Anton

Strákarnir okkar þurfa að brjóta blað í sögunni ætli þeir sér sigur á móti Króatíu í fyrsta leik sínum í í milliriðlinum á Evrópumótinu í handbolta í Austurríki. Ísland mætir Króatíu klukkan 15.00 í dag.

Íslenska handboltalandsliðið hefur aldrei unnið Króata á stórmóti, hvorki þegar þeir hafa leikið undir eigin merkjum eða á þeim tíma þegar þeir léku undir merkjum Júgóslavíu fyrir árið 1992.

Ísland hefur tvisvar mætt Króatíu á stórmótum; á EM í Sviss fyrir fjórum og síðan á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004. Króatar unnu með einu marki á EM en með fjórum mörkum á Ólympíuleikunum.

Þjóðirnar hafa alls mæst sjö sinnum í landsleik og hefur Ísland unnið tvisvar, í Heimsbikarnum í Svíþjóð 2004 og í Kaplakrika í undankeppni EM 1994. Króatar hafa unnið fjóra leiki og fyrsti leikur þjóðanna endaði með jafntefli.

Átta leikmenn íslenska liðsins í dag voru með í síðasta sigurleik gegn Króatíu 20. nóvember 2004 en það voru þeir Róbert Gunnarsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Logi Geirsson, Vignir Svavarsson, Arnór Atlason, Ingimundur Ingimundarson og Hreiðar Levý Guðmundsson.

Ólafur Stefánsson var síðan sá eini sem var með í sigrinum á Króatíu í Kaplakrika í október 1993. Ólafur skoraði eitt mark í leiknum sem var aðeins hans fjórði landsleikur. Ólafur var hinsvegar ekki með í sigrinum í nóvember 2004.

Landsleikir Ísland og Króatíu

EM í Sviss, milliriðill annar leikur

1.febrúar í St. Gallen

Ísland-Króatía 28-29

Heimsbikarinn í Svíþjóð

Gautaborg 20. nóvember 2004

Ísland-Króatía 31-30

Ólympíuleikarnir í Aþenu 2004, fyrsti leikur

Aþena 14. ágúst 2004

Ísland-Króatía 30-34

Æfingamót í Noregi (Elfang Cup)

Orkanger 6.janúar 2002

Ísland-Króatía 23-29

Undankeppni EM 1994

Útileikur í Zagreb 1. desember 1993

Ísland-Króatía 18-26

Undankeppni EM 1994

Heimaleikur í Kaplakrika 20. október 1993

Ísland-Króatía 24-22

Æfingamót í Þýskalandi

11. júlí í Menden

Ísland-Króatía 25-25






Fleiri fréttir

Sjá meira


×