Handbolti

Róbert: Eins og að mæta loksins vel lesinn í próf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Róbert Gunnarsson.
Róbert Gunnarsson. Mynd/DIENER
Róbert Gunnarsson var í sjöunda himni eftir sigur Íslands á Noregi á EM í handbolta í dag, 35-34. Með sigrinum tryggði sér Ísland sér sæti í undanúrslitum mótsins.

„Við skiluðum mjög „solid" leik í dag. Við náðum að vísu ekki að hrista þá af okkur en þeir eru með hrikalega gott lið."

„Við vorum búnir að sinna okkar vinnu vel fyrir leikinn og gerðum það sem var lagt fyrir okkur. Þannig er það alltaf og við mætum alltaf gríðarlega vel undirbúnir fyrir hvern leik."

„Mér líður eins og að ég sé að fara í próf og sé loksins vel lesinn," sagði hann og hló.

Hann sagði sóknarleikinn hafa verið góðan hjá Íslandi á mótinu en ekki síður hinum megin á vellinum.

„Fyrir utan tvo fyrstu leikina þá hefur varnarleikurinn verið gríðarlega góður og þannig var það líka í dag. Ég er mjög ánægður með hann enda er þetta það sem til þarf - stöðugan leik í bæði vörn og sókn."

Eins og landsmenn tóku eftir lék landsliðið með sorgarbönd í dag.

„Við tileinkum allir Gunnari Magnússyni þennan sigur," sagði Róbert að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×