Innlent

Fjórir látnir í banaslysum erlendis á rúmri viku

Fjórir Íslendingar hafa látist af slysförum erlendis á rúmri viku. Ungt par lést í Tyrklandi, tuttugu og níu ára karlmaður lést í Lettlandi og í gærkvöldi lést 23 ára gamall maður í Noregi.

Kraftaverkabarnið í Tyrklandi

Á miðvikudaginn 20. október lést ungt par í hörmulegu bílslysi í Tyrklandi. Parið hafði verið á ferðalagi í Tyrklandi en talið er að þau hafi misst stjórn á bifreið sem þau óku og lent framan á sendiferðabíl sem kom akandi úr gagnstæðri átt. Mikil riging var á svæðinu þegar slysið varð.

Sex mánaða gamall drengur parsins var með þeim í för og slapp hann ómeiddur. Mikið var fjallað um hann í tyrkneskum fjölmiðlum og fóru skyldmenni út til Tyrklands til að sækja piltinn. Hann var kallaður „Kraftaverkabarnið" í þarlendum fjölmiðlum.

Þau sem létust í Tyrklandi hétu Jóhann Árnason, fæddur árið 1985, og Dagbjört Þóra Tryggvadóttir, fædd 1976.

Lést af slysförum í Lettlandi

Íslenskur karlmaður lést í Lettlandi á föstudaginn fyrir viku, 22. október. Slysið varð snemma morguns þegar maðurinn fór inn í spennustöð í gamla bænum í Riga. Ekki er vitað afhverju dyr spennustöðvarinnar voru opnar en þær eiga að vera lokaðar samkvæmt öryggisreglum í landinu. Niðamyrkur var þegar Íslendingurinn var þarna á ferð og ólíklegt að hann hafi vitað hvert hann var kominn eða í hvers konar hættu hann hafði komið sér í.

Málið er enn í rannsókn í Lettlandi.

Maðurinn hét Árni Freyr Guðmundsson og var fæddur árið 1981.

Lenti fyrir lest í Noregi



Í gærkvöldi lést tuttugu og þriggja ára gamall Íslendingur eftir að hann varð fyrir lest í bænum Drammen í Noregi. Maðurinn var einn á ferð þegar slysið varð og rannsakar lögreglan ennþá málið. Ekki er talið að um sjálfsvíg sé að ræða. Talið er að hann hafi látist samstundis.

Lestin sem maðurinn lenti fyrir er svokölluð flugvallalest sem keyrir á milli flugvallarins í Drammen og Brakeröya stöðvarinnar, þar sem slysið varð. Íslendingurinn var búsettur rétt fyrir utan Drammen en var staddur í samkvæmi í grennd við slysstaðinn skömmu áður og telur lögregla að hann hafi verið á heimleið.

Slysið varð um klukkan hálf eitt en engin vitni voru að atvikinu að lestarstjóranum undanskildum.

Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×