Erlent

Ekki reyna að stela kartöflum frá Alexander

Óli Tynes skrifar
Alexander passaði vel upp á kartöflurnar sínar.
Alexander passaði vel upp á kartöflurnar sínar.

Rússneskur bóndi hefur verið dæmdur fyrir að vera einum of ákveðinn í að verja kartöflugarða sína fyrir þjófum.

Alexander Skipintsev býr í Primorye héraði nálægt landamærunum að Kína. Alexander sem er 73 ára gamall var orðinn þreyttur á tíðum þjófnuðum úr kartöflugörðunum.

Hann leysti það með því að leggja þar jarðsprengjur.

Jarðsprengjurnar hafði hann smíðað sjálfur í bílskúrnum sínum, enda hagleiksmaður.

Upp um þetta komst þegar þjófur lenti á einni jarðsprengjunni og fannst í umtalsverðum tætlum. Það var í ágúst á síðasta ári og þjófurinn er búinn að jafna sig þokkalega.

Og Alexander hefur nú hlotið sinn dóm fyrir tiltækið. Hann fékk tveggja og hálfs árs fangelsi -skilorðsbundið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×