Erlent

Listakona flýr múslima

Óli Tynes skrifar
Molly Norris.
Molly Norris.

Bandarísk listakona er farin í felur eftir að múslimaklerkur kvað upp dauðadóm yfir henni.

Molly Norris teiknaði skopmyndir fyrir vikuritið Seattle Weekly í Seattle.

Í maí síðastliðnum hættu framleiðendur teiknimyndaþáttarins South Park við að setja í loftið þátt þar sem Múhameð spámaður var sýndur í bjarndýrsbúningi.

Norris gramdist þetta og 20. maí birtist eftir hana háðsleg teikning með ýmsum smáfígúrum.

Engin þeirra líktist hið minnsta Múhameð. Þetta voru hlutir eins og kaffbolli, pastapakki og teningur. En yfir myndinni stóð „Vill hinn rétti Múhameð standa upp."

Væntanlega var Morris þarna að gera grín að því að það mætti ekki einusinni teikna Múhameð í dulargerfi.

Í texta með myndinni sagði að kannski ætti að gera 20. maí að „Allir teikni Múhameð" degi.

Baðst afsökunar

Nokkru síðar skaut upp aðdáendasíðu á Facebook. Norris sór hana af sér. Sagði að hún hefði verið að tala í hálfkæringi og að hún hafi alls ekki lýst yfir Múhameðsteikningadegi.

Hún bað jafnframt múslima afsökunar. Það dugði þó ekki múslimaklerkinum Anwar al-Awlaki sem hefur verið bendlaður við hið misheppnaða Times Square sprengjutilræði og önnur óhæfuverk.

Hann lýsti Norris réttdræpa. Bandaríska alríkislögreglan tók þetta svo alvarlega að hún ráðlagði listakonunni að hverfa af yfirborði jarðar.

Hún hefur nú yfirgefið heimili sitt, skipt um nafn og í raun þurrkað út fortíð sína og líf. Enginn veit nú hvar hún er niðurkomin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×