Erlent

Ekki lengur þörf fyrir guð

Stephen Hawking sendir í næstu viku frá sér nýja bók um tilurð heimsins.
nordicphotos/AFP
Stephen Hawking sendir í næstu viku frá sér nýja bók um tilurð heimsins. nordicphotos/AFP

Breski vísindamaðurinn og metsöluhöfundurinn Stephen Hawking hefur komist að þeirri niðurstöðu að engin þörf sé fyrir guð til að útskýra tilurð heimsins. Heimurinn hafi einfaldlega orðið til af sjálfu sér, án íhlutunar guðs.

„Vegna þess að til eru lögmál á borð við þyngdarlögmálið, þá bæði getur og mun alheimurinn skapa sjálfan sig úr engu. Sjálfkvæm sköpun er ástæða þess að eitthvað er til frekar en ekkert, að alheimurinn er til og að við erum til," segir Hawkings í nýrri bók, sem kemur út innan skamms og nefnist The Grand Design, eða Mikludrög.

Í bók sinni Saga tímans, sem kom út árið 1988 og varð metsölubók, sagðist Hawking ekki geta útilokað að guð hafi átt hlut að sköpun heimsins: „Ef við uppgötvum allsherjarkenningu, þá yrði það endanlegur sigur mannlegrar skynsemi - því þá myndum við þekkja huga guðs."

Nú segir hann náttúrulögmálin hafa ráðið því alfarið hvernig heimurinn varð til. „Ef þú kýst svo, þá geturðu kallað öll vísindalögmálin „guð"," segir hann, „en það væri ekki persónulegur guð sem þú gætir hitt og spurt spurninga."- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×