Erlent

Veit ekki að foreldrarnir fórust

Óli Tynes skrifar

Hollenski drengurinn sem einn lifði af flugslysið í Libyu fyrir helgina er á batavegi. Ættingjar hans frá Hollandi hafa heimsótt hann.

Hann veit ekki ennþá að foreldrar hans og eldri bróðir fórust í slysinu. Alls fórust 104 með vélinni. Stór hluti farþeganna voru frá Hollandi.

Ruben van Assouw er níu ára gamall. Hann hafði verið í safari ferð í Suður-Afríku ásamt fjölskyldu sinni og var á heimleið.

Vélin var á leið frá Suður-Afríku til Lundúna og átti aðeins að millilenda í Tripoli.

Björgunarmenn fundu Ruben litla í sæti sínu í einum af stærstu hlutunum af brakinu. Hann var með meðvitund og kveinkaði sér furðu lítið þegar hann var fluttur á sjúkrabörurnar.

Í ljós kom að fætur hans voru margbrotnir og hann hafði ýmsa fleiri áverka.

Talsmaður hollenska sendiráðsins í Tripoli sagði að hann verði fluttur heim til Hollands eftir einhverja daga.

Frænka hans og frændi komu frá Hollandi til að vera hjá honum. Hann brosti þegar hann sá þau, en annars er honum mest haldið sofandi.

Enn er ekkert vitað um orsakir slyssins, en búið er að finna flugrita vélarinnar sem var frá Libyska flugfélaginu Afriqiyah.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×