Viðskipti innlent

Kaupþing styður kaup 3i á 20% hlut í Refresco

Kaupþing banki, sem einn af hluthöfum Refresco, hefur stutt ferlið sem leitt hefur til þess að fjárfestingarfélagið 3i hefur keypt 20% hlut í Refresco. Þetta lýsi trausti á stjórn Refresco, stefnu fyrirtækisins og meirihlutaeigendum þess, sem eru íslenskir fjárfestar, en þeir eru auk Kaupþings, Vífilfell og Stoðir sem hafa leitt hópinn.

Fjallað er um málið á heimasíðu Kaupþings. Þar segir að hætt var við fyrri áætlanir sem miðuðu að því að selja allan hlut íslensku fjárfestanna í Refresco og studdi Kaupþing þá ákvörðun. Skilanefnd Kaupþings taldi að ekki fengist ákjósanlegt verð fyrir hlutinn á þeim tíma.

Skilanefnd ákvað því, til að hámarka virði eigna fyrir kröfuhafa, að styðja við stjórnendur Refresco og stefnu fyrirtækisins sem byggist á yfirtökum og innri vexti.

Eigendur Refresco, eins stærsta drykkjarvöruframleiðanda Evrópu, og alþjóðlega fjárfestingafélagið 3i hafa gert samkomulag um að 3i kaupi nýtt hlutafé í Refresco, sem nemur 20% af heildarhlutafé félagsins. Verðmæti hlutafjáraukningarinnar nemur 84 milljónum evra, um 14,5 milljörðum íslenskra króna, sem verður að fullu nýtt til að styðja við frekari vöxt Refresco, að því er segir í umfjölluninni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×