Erlent

Telja nauðganir vera konum að kenna

Óli Tynes skrifar

Rúmlega helmingur kvenna í Bretlandi telur að fórnarlömb nauðgana beri sjálf ábyrgð á verknaðinum samkvæmt nýrri skoðanakönnun.

Könnunin var gerð í tilefni af tíu ára afmæli stuðningssamtaka fórnarlamba nauðgana í Lundúnum sem kallast Haven sem þýða mætti sem Skjólið.

Talað var við yfir eittþúsund konur á aldrinum 18 til 50 ára. Nær fimmtungur kvennanna taldi að ef konur færu heim með karlmönnum ættu þær að bera hluta af ábyrgðinni.

Ein af hverjum átta taldi að ef kona dansaði á ögrandi hátt bæri hún ábyrgðina. Ein af hverjum fimm kvennanna sagði jafnframt að hún myndi ekki tilkynna eða kæra ef henni væri nauðgað.

Talskona Skjólsins sagði í samtali við Sky fréttastofuna að það væri fáránlegt að halda að fyrrgreind atriði færðu konum ábyrgð á því ef þeim yrði nauðgað.

Ábyrgðin lægi alltaf hjá karlmanninum sem nauðgaði en ekki hjá konunni og framkomu hennar.

Talið er að í Bretlandi séu 95 prósent nauðgana aldrei kærðar. Og í þeim tilfellum sem kært er eru sakfellingar afar fátíðar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×