Innlent

Landsvirkjun til bjargar Helguvík

Umframorka Landsvirkjunar og orka frá Búðarhálsvirkjun fara að hluta í Helguvík, samkvæmt nýjustu áætlun um að tryggja álverinu þar nægilega raforku. Forstjóri Norðuráls segist myndu fagna þátttöku Landsvirkjunar í verkefninu.

Í þeim vandræðum sem verið hafa við að afla álveri í Helguvík raforku hefur þriggja ára stjórnarsamþykkt Landsvirkjunar ekki auðveldað lausn en hún kveður á um að ekki verði samið um orkusölu til nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir að samningar við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur séu burðarásinn í verkefninu. Spurður hvort Landsvirkjun þurfi einnig að koma að málum svarar Ragnar:

"Vonandi sér Landsvirkjun sér einnig fært að koma að þessu verkefni. Við sjáum til með það."

Málið þykir pólitískt viðkvæmt en samkvæmt heimildum Stöðvar tvö hefur Landsvirkjun þegar lýst sig reiðubúna að hjálpa til við að koma Helguvík í gang.

Nýjasta áætlun um orkuöflun til Norðuráls gerir ráð fyrir að, af 450 megavatta raforku til þriggja áfanga álversins, komi 250 megavött frá HS Orku, 120-140 megavött frá Orkuveitu Reykjavíkur og 60-80 megavött komi frá Landsvirkjun.

Miðað er við að orka til fyrsta áfanga álversins komi frá Reykjanesvirkjun og Hellisheiðarvirkjun, orka til annars áfanga komi úr nýjum jarðvarmavirkjunum í Eldvörpum og Hverahlíð, og loks muni orka til þriðja áfanga komi frá nýrri jarðvarmavirkjun við Krýsuvík og væntanlegri vatnsaflsvirkjun Landsvirkjunar við Búðarháls enda fer umframorka sem til er í kerfinu langt með að mæta nýgerðum orkusamningi Landsvirkjunar við Alcan í Straumsvík.

"Við myndum fagna þátttöku Landsvirkjunar," segir Ragnar. "Ég held líka að það verði mjög sterk skilaboð gagnvart alþjóðasamfélaginu að fyrirtæki sem er í eigu íslenska ríkisins, það er að segja eina fyrirtækið sem er alfarið í eigu ríkisins, sýni verkefninu stuðning í verki."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×