Innlent

Bæjarfulltrúar sýknaðir: „Óþægilegt að hafa þetta hangandi yfir sér“

Valur Grettisson skrifar
Guðríður Arnardóttir.
Guðríður Arnardóttir.

„Ég var ekki mjög kvíðinn yfir þessu, en það er óþægilegt að hafa svona lagað hangandi yfir sér," segir Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi. Hún, Ólafur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Karlsson voru sýknuð í morgun í meiðyrðamáli sem Frjáls miðlun höfðaði í Héraðsdómi Reykjaness.

Það fyrirtæki varð umdeilt á síðasta ári og var harkalega deilt á það af hálfu bæjarfulltrúanna en í ljós kom að Kópavogsbær gerði umsvifamikla verksamninga við fyrirtækið. Þá var Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri en eigandi Frjálsrar miðlunar er dóttir hans og tengdasonur.

„Það var tekið fram í dómnum að ummælin væru hluti af starfsskyldum okkar enda beindust þau að stjórnsýslunni í Kópavogi," segir Guðríður sem er að vonum sátt við sigurinn.

Alls krafðist dóttir og tengdasonur Gunnars 11,4 milljóna króna vegna ummælanna. Þess í stað er þeim gert að greiða málskostnað bæjarfulltrúanna sem samanlagt nemur tæpri milljón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×