Innlent

Varaformaður Siðmenntar stígur til hliðar í mannréttindaráði

Erla Hlynsdóttir skrifar
Bjarni Jónsson segir ákvörðunina byggja á einlægri ósk sinni um að málefnið fái málefnalega umfjöllun þannig að áherslan verði á innihald en ekki formsatriði.
Bjarni Jónsson segir ákvörðunina byggja á einlægri ósk sinni um að málefnið fái málefnalega umfjöllun þannig að áherslan verði á innihald en ekki formsatriði.

Bjarni Jónsson, fulltrúi Samfylkingar í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, hefur dregið sig í hlé frá afgreiðslu tillögu mannréttindaráðs um samskipti trúfélaga og skóla.

Bjarni er varaformaður Siðmenntar, félags húmanista, og gagnrýndu sjálfstæðismenn í ráðinu að Bjarni tæki þátt í afgreiðslu málsins þar sem að þeirra mati hafði hann hagsmuna að gæta af því hver niðurstaðan yrði. Meirihluti ráðsins komst þó að þeirri niðurstöðu að Bjarni væri vel hæfur. Engu að síður hefur Bjarni ákveðið að stíga til hliðar.

Í bókun sem Bjarni lagði fram á síðasta fundi mannréttindaráðs segir um þessa ákvörðun hans:

„Ástæðan er sú að reynt hefur verið að gera mannréttindamál tortryggileg vegna stöðu minnar sem varaformanns Siðmenntar en einnig er gefið í skyn að ég eigi hagsmuna að gæta en með slíkum málflutningi er verið að hefta lýðræðislega umræðu. Að baki þessari ákvörðun liggur einlæg ósk mín að málefnið fái málefnalega umfjöllun þannig að áherslan verði á innihald en ekki formsatriði. Ég tel mig vel hæfan að leggja fram og afgreiða hvað mannréttindamál sem fyrir ráðið kemur enda sit ég í umboði kjósenda í Reykjavík en er ekki á klafa hagsmunahópa."

Margrét Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Kristín Heiða Pétursdóttir og Elín Sigurðardóttir létu í kjölfarið bóka:

„Við undirrituð, fulltrúar og varafulltrúar Samfylkingar, Besta Flokks og Vinstri Grænna í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar virðum ákvörðun Bjarna Jónssonar og föllumst á hana til þess að ekki verði deilt um formsatriði heldur innihald þeirrar tillögu sem hér er til umfjöllunar."

Að því loknu vék Bjarni af fundi og Ingibjörg Stefánsdóttir tók þar sæti.

Næsti fundur mannréttindaráðs er á morgun og er þá búist við að tillaga ráðsins um samskipti trúfélaga við leik- og grunnskóla verði send áfram til umsagnar hjá mennta- og íþróttaráði, tómstundaráði og velferðarráði.








Tengdar fréttir

Trúboð presta í leikskólum bannað

Meirihluti fulltrúa í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar hefur lagt fram drög að ályktun um samskipti leik- og grunnskóla við trúfélög. Í drögunum er meðal annars gert ráð fyrir að fermingarfræðsla skuli fara fram utan skólatíma. Auk þess verða heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla óheimilar ef ályktunin verður samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×