Viðskipti innlent

S&P: Lánshæfi ÍLS mun fylgja lánshæfi ríkissjóðs

Matsfyrirtækið Standard & Poors (S&P) segir að lánshæfiseinkunn Íbúðalánasjóðs (ÍLS) í BBB á neikvæðum horfum muni haldast óbreytt fram til loka apríl. Þá mun S&P endurmeta stöðu ríkissjóðs og ef lánshæfi ríkissjóð fellur ennfrekar mun S&P lækka lánshæfiseinkunn ÍLS um einn flokk.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu S&P um ÍLS. Þar kemur fram að matsfyrirtækið geri sér grein fyrir mikilvægi ÍLS á Ísland nú um stundir í kjölfar bankahrunsins. Sjóðurinn sé nú nánast eini lánveitandi á húsnæðismarkaðinum á Íslandi og að ríkissjóður muni verja stöðu hans. S&P á ekki von á að þessi staða sjóðsins breytist í náinni framtíð.

Í skýrslunni kemur fram að ÍLS hafi skilað miklu tapi á árinu 2008 og það stefni í að taprekstur verði einnig af starfseminni fyrir árið 2009 í heild þótt að sjóðurinn hafi skilað hagnaði á fyrri helmingi þess árs. Þá er greint frá því að um 14% af útlánum sjóðsins séu annað hvort í greiðslufalli eða í greiðslustöðvun í gegnum sértækar aðgerðir fyrir fólk í skuldavanda. Þetta muni leiða til lausafjárskorts hjá sjóðnum í ár og á næsta ári.

S&P telur að ÍLS muni geta ráðið við lausafjárskortinn annaðhvort af innistæðum sínum sem námu 33 milljörðum kr. um mitt ár 2009 eða með lántökum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×