Innlent

Formaður fjárlaganefndar: Niðurskurðurinn mildaður

Heilbrigðisstofnunin á Suðurnesjum er ein þeirra stofnana sem er ætlað að skera niður í rekstri sínum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
Heilbrigðisstofnunin á Suðurnesjum er ein þeirra stofnana sem er ætlað að skera niður í rekstri sínum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Tillögur um niðurskurð hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni verða endurskoðaðar. Að sögn Oddnýjar G. Harðardóttur, formanns fjárlaganefndar Alþingis, er hlustað á háværar raddir um óraunhæfar tillögur um niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu og reynt að finna leiðir til að milda áhrif efnahagsástandsins á starfsemi heilbrigðiskerfisins úti um land.

„Það er þverpólitísk sátt um að endurskoða þetta og það verður gert," segir Oddný. Hins vegar sé ekki hægt að lofa því að enginn niðurskurður verði „Það er óábyrgt. Við höfum ákveðnar tekjur og verðum að aðlaga gjöldin að þeim. Ef við gerum það ekki erum við í tjóni til framtíðar."

Oddný vill ekki segja til um hve háar fjárhæðir um er að tefla né hvaðan peningarnir sem draga eiga úr niðurskurðinum eiga að koma. Hún vill heldur ekki upplýsa um hve margar stofnanir sé að ræða. „Ég vil ekki vekja upp væntingar og þurfa að svíkja þær. Slíkt er óábyrgt," segir Oddný.



Oddný Harðardóttir

Að meðaltali nemur niðurskurður á þrettán heilbrigðisstofnunum tæpum tuttugu prósentum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga er gert að skera niður um fjörutíu prósent, St. Jósefsspítala-Sólvangi um 37 prósent, Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki um þrjátíu prósent og Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á milli 20 og 30 prósent.

Samtals nemur niðurskurður á heilbrigðisstofnunum tæpum þremur milljörðum króna.

Fjárlagafrumvarpið hefur verið til meðferðar fjárlaganefndar í þrjár vikur. Hafa nefndarmenn hlýtt á sjónarmið sveitarstjórnarfólks og ráðuneyta til frumvarpsins og fram undan eru viðtöl við fulltrúa stofnana. Þá hefur nefndin falið fagnefndum þingsins að veita umsögn og Ríkisendurskoðun að yfirfara ýmsar tölur frumvarpsins.

bjorn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×