Innlent

Án byssuleyfa með vopnasafn

Maðurinn var vel vopnum búinn. Mynd úr safni.
Maðurinn var vel vopnum búinn. Mynd úr safni.
Ríkissaksóknari hefur ákært tæplega fimmtugan karlmann fyrir að brjótast inn í bifreið sem stóð í fjöru í landi Hafnar í Hvalfjarðarsveit. Úr bílnum stal maðurinn haglabyssu og riffli, ásamt skotum í bæði skotvopnin.

Maðurinn er ákærður fyrir Héraðsdómi Vesturlands, en brotin sem hann er ákærður fyrir áttu sér stað á 2009 og á þessu ári. Manninum er enn fremur gefið að sök vopnalagabrot með því að hafa átt þrjá riffla án þess að hafa tilskilin skotvopnaleyfi.

Þá er hann ákærður fyrir að hafa geymt tvær haglabyssur og þrjá riffla, svo og skotfæri í þau, auk loftbyssuskota, óaðskilin og í ólæstum hirslum.

Loks fann lögregla hnúajárn við húsleit.

Fjórum sinnum hafði lögregla svo afskipti af manninum þar sem hann ók bifreið, án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Í eitt skiptanna var bíllinn sem hann ók þar að auki ótryggður.

Ákæruvaldið krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og að skotvopnasafn hans og skotfæri, svo og hnúajárnið, verði gerð upptæk.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×