Erlent

Hernum einum um að kenna í Londonderry

Ættingjar þeirra sem létust.
Ættingjar þeirra sem létust. MYND/AP

Ný skýrsla hefur leitt í ljós að allir þeir sem féllu fyrir byssukúlum breskra hermanna í Londonderry á Norður-Írlandi árið 1972 voru saklausir og breska hernum er einum um að kenna hvernig fór.

Fjórtán létust og þrettán særðust í atvikinu sem kallað hefur verið blóðugi sunnudagurinn. Skýrslunnar hefur lengi verið beðið en það var David Cameron núverandi forsætisráðherra Bretlands sem skýrði frá niðurstöðunum í breska þinginu í dag.

Hann sagði að gjörðir hersins hefðu verið óafsakanlegar og niðurstöður skýrslunnar væru hneykslanlegar. Skýrslan leiðir meðal ananrs í ljós að hermennirnir hafi ekki gefið neinar viðvaranir áður en þeir hófu skothríðina og að á meðal þeirra sem létust hafi verið fólk sem hafi verið skotið þegar það reyndi að aðstoða særða.

Það var Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra sem fyrirskipaði gerð skýrslunnar árið 1998 og tóku skýrsluhöfundar viðtöl við hundruð manns sem voru á staðnum. Skýrslan var tólf ár í vinnslu og kostaði 195 milljónir punda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×