Erlent

Lögreglumaðurinn blindur

Óli Tynes skrifar
Breskur lögreglumaður skoðar aðstæður. Mynd/ AFP.
Breskur lögreglumaður skoðar aðstæður. Mynd/ AFP.

Breska lögreglumanninum David Rathband sem morðinginn Raoul Moat skaut í andlitið með haglabyssu hefur verið sagt að hann hafi misst sjón á báðum augum og verði blindur upp frá þessu.

Rathband sem er 42 ára gamall var einn á eftirlitsferð í lögreglubíl þegar hann rakst á Moat sem hafði þá þegar sagst myndu myrða alla þá lögregluþjóna sem hann næði til.

Moat var vopnaður tvíhleyptri afsagaðri haglabyssu en Rathband var óvopnaður. Rathband segir að hann hafi séð Moat koma hlaupandi að bíl sínum og miða á sig haglabyssunni.

Þeir hafi horfst í augu andartak og hann hafi ekki séð neitt. Engan vott um tilfinningar. Það var það síðasta sem lögregluþjónninn sá um ævina því Moat skaut á hann úr báðum hlaupum byssunnar.

Annað skotið lenti í andliti hans en hitt í öxl. Þegar Moat var farinn tókst Rathband að kalla á hjálp um talstöð sína.

Auk Rathbands skaut Moat og særði fyrrverandi kærustu sína og barnsmóður og myrti nýjan kærasta hennar.

Eftir vikulanga eftirför lauk þessu öllu með því að Moat skaut sjálfan sig í höfuðið eftir að lögreglan hafði króað hann af.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×