Viðskipti innlent

Líkir Hollendingum og Bretum við okurlánara

Höskuldur Kári Schram skrifar

Krafa Breta og Hollendinga í Icesave málinu á sér enga stoð í lögum og Íslendingum ber ekki að greiða skuldir einkafyrirtækis að mati franska hagfræðingsins Alain Lipietz. Hann líkir Bretum og Hollendingum við okurlánara.

Morgunblaðið birtir í dag grein eftir Alain Lipietz undir fyrirsögninni Íslendingar skulda ekkert. Lipietz er franskur hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður á Evrópuþinginu.

Í grein sinni fer Lipietz yfir kröfur Breta og Hollendinga í Icesave málinu. Hann gagnrýnir Breta og Hollendinga fyrir að reynda skjóta sér undan ábyrgð í málinu með því að reyna þvinga Íslendinga til að gera skuldir einkafyrirtækis að opinberum skuldum.

Hann telur ljóst að kröfur Breta og Hollendinga eigi sér enga stoð í lögum þar sem Íslendingar hafi í raun uppfyllt skilyrðir reglugerðar Evrópusambandsins um innstæðutryggingakerfi.

Lipietz líkir Bretum og Hollendingum við okurlánara og vísar til þess að á sama tíma og Íslendingum sé gert að greiða 5,5 prósent vexti af Icesave láninu sé Evrópusambandið að veita Ungverjalandi lán á tveggja prósenta vöxtum.

Lipietz telur að íslendingar séu þjakaðir af einhverskonar samviskubiti vegna bankahrunsins og ennfremur haldnir barnalegri þrá sem lýsir sér í löngun til að borga. Íslendingar eigi hins vegar ekki að láta undan kröfum Breta og Hollendinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×